Meðferð vetrargræðlinga II
JARÐVEGSUNDIRBÚNINGUR OG STUNGA
Vetrargræðlingar eru klipptir að vetri til, búntaðir og geymdir í kæli þar til frost er farið úr jörðu. Venjulega er hægt að stinga vetrargræðlingum í lok maí – byrjun júní. Mjög auðvelt er að fjölga ösp og víðitegundum með vetrargræðlingum og hefur margur sumarbústaðareigandinn sparað sér drjúgan skilding með því að rækta sínar eigin plöntur. Á móti kemur að ræktunin tekur tíma, tvö til þrjú ár og þetta er talsvert puð...
Nokkrum dögum áður en stinga á græðlingunum eru þeir teknir úr kælinum eða frystinum eftir því sem við á. Ef græðlingarnir eru frosnir verður að láta þá þiðna hægt og rólega til að þeir skemmist ekki. Tveimur til þremur dögum fyrir stunguna er ágætt að raða búntunum í bala þannig að þau standi upp á endann, oddmjói endinn á brumunum á að vísa upp. Því næst er sett vatn í balann og það látið ná vel upp fyrir miðjuna á græðlingunum. Græðlingarnir eru látnir standa í vatninu í tvo til þrjá daga. Á þeim tíma ná þeir að drekka upp vatn og byggja upp safaspennu sem nýtist þeim á meðan þeir eru að mynda rætur. Ekki er gott að láta græðlingana mynda rætur í vatninu því þær rætur eru mjög stökkar og brotna nær undantekningalaust af þegar græðlingunum er stungið í mold. Rætur sem myndast í mold verða miklu seigari og þola betur hnjask.
Á meðan græðlingarnir eru í baði er gott að undirbúa jarðveginn fyrir græðlingastunguna. Fyrst þarf að fjarlægja allt illgresi úr beðinu og svo þarf að stinga það upp. Stungugaffall er einkar heppilegt verkfæri fyrir flesta en einnig eru til ýmsar gerðir af litlum handtæturum. Víðir og ösp þurfa frekar rakaheldinn og frjósaman jarðveg til að þau nái að vaxa eitthvað af viti. Þegar búið er að grófvinna beðið er gott að dreifa kalki og húsdýraáburði ofan á það og blanda saman við jarðveginn.
Sýnt hefur verið fram á það að græðlingar sem stungið er í gegnum svart plast mynda fyrr rætur og dafna betur en græðlingar sem ekki fá slíkan munað. Svarta plastið hylur jarðveginn þannig að rakinn í efstu jarðvegslögunum verður jafnari, hitastigið verður eilítið hærra og illgresisfræ nær ekki að spíra vegna birtuleysis. Plastið má kaupa á rúllum og er það þá um 2 m breitt. Þegar búið er að stinga upp jarðveginn og blanda í hann áburði er plastið strengt ofan á beðið og jaðrar þess og endar huldir með mold. Það er gert til þess að ekki komist vindur undir plastið og svifti því af. Miðað við 2 m breitt plast má gera ráð fyrir því að beðið verði um 1 m á breidd, um 50 cm fari undir mold á sitt hvorum jaðrinum.
Þá má fara að stinga græðlingunum (loksins). Víðigræðlingar eru yfirleitt látnir standa á beðinu í tvö sumur og teknir upp þriðja sumarið. Ágætt er að hafa um 15x15 cm millibil milli víðigræðlinga en ívið meira fyrir öspina, þar má millibilið gjarnan vera 30x30 cm. Hverjum græðlingi er stungið það djúpt að u.þ.b. 1/3 af lengd hans stendur upp úr, 2/3 lengdarinnar fara niður í jarðveginn. Eftir að búið er að stinga græðlingunum í gegnum plastið er gott að dreifa dálítilli grús yfir plastið á beðinu til að fergja það.
Í þurrkatíð er nauðsynlegt að fylgjast með græðlingunum fyrsta kastið og vökva þá ef þurfa þykir. Rótamyndunin tekur 10-20 daga og ef græðlingaefnið hefur verið valið af kostgæfni verða afföll ekki mikil.
Næsta vor, áður en græðlingarnir laufgast, er ágætt að ganga á beðið og kippa plastinu í burtu. Um svipað leyti þarf að gefa græðlingunum áburð og er tilbúinn áburður þægilegur kostur. Ef notast er við blákorn er ágætt að gefa u.þ.b. 6-8 kg á hverja 100 m2, fyrst í lok maí og svo aftur í byrjun júlí. Einnig eru plönturnar klipptar niður um ca 1/3 af ársvextinum til að þær þétti sig og rótakerfið verði betra. Margir ræktendur hafa reyndar komist að því að þessi klipping er óþörf, rjúpan er svo hrifin af víðibrumunum að hún sér um að hreinsa þau af á veturna.
Asparplöntur eru látnar standa í tvö til þrjú sumur á græðlingabeðinu en þá er þeim umplantað. Eftir umplöntun þurfa þær að fá meira pláss, fyrsta kastið er ágætt að gróðursetja þær á beð með 70x70 cm millibili en umplöntunin þarf að gerast annað hvert ár þar til þær eru tilbúnar til útplöntunar.
Græðlingar sem eiga að fara beint í potta eru meðhöndlaðir eins og aðrir vetrargræðlingar fram að stungunni. Þeim er oft stungið 2 – 3 saman í pott (t.d. loðvíði) og er það gert í lok maí – byrjun júní. Smávaxnar tegundir eru tilbúnar á öðru sumri en stærri tegundir má rækta árinu lengur.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.