Lerki í blíðu og stríðu

Lerkitré af ættkvíslinni Larix flokkast til barrtrjáa. Ólíkt öðrum barrtrjám býr lerkið yfir þeim sérstaka eiginleika að það fellir barrið á haustin. Á vorin laufgast þau aftur og þá birtast langar, ljósgrænar, mjúkar nálar sem eru margar saman í knippi. Þessar glænýju, mjúku nálar færa manni sumarið á silfurfati og vekja hjá manni þörf fyrir að ganga að trénu og klappa því, svona eins og maður myndi strjúka ketti. Lerki getur verið ákaflega skemmtilegt garðtré, börkurinn er ljós og tréð allt bjart og fínlegt yfirlitum. Nú heyrast þær raddir að flagð sé undir fögrum berki.

Fyrir nokkrum árum kom upp alvarlegur sveppasjúkdómur í alaskaösp. Var þar kominn fram ryðsveppur sem hefur valdið miklum usla í asparræktun og ekki er séð fyrir endann á þeirri þróun. Lerkið spilar stórt hlutverk í þessum harmleik því það er millihýsill fyrir ryðsveppinn. Á vorin þarf ryðsveppurinn að komast á nálar lerkitrjáa svo hann geti myndað smitgró sem geta smitað öspina. Lerkið sjálft býður lítinn skaða af þessari millilendingu sveppsins, hugsanlega skemmist ein og ein nál en það tekur því varla að minnast á svoleiðis smámuni fyrir tré með óteljandi nálar. Reyndar var öspin alls ekki í náðinni þegar þessi ryðsveppur tók að herja á hana. Hún var komin á lista yfir öxulplöntur hins illa enda ljóst að öspum var almennt uppsigað við skólplagnir og bílastæði landans og greinilegt að þessi illa innrætta planta hafði ekkert erindi í íslenska garða. Við Íslendingar megum hins vegar ekkert aumt sjá og þegar öspin veiktist hastarlega af þessu alvarlega ryði var hún snarlega tekin af svarta listanum og allt kapp lagt á að finna lækningu við sjúkdómnum. Lækningin er ekki fundin en við uppgötvuðum sameiginlegan óvin, lerkið. Reynt hefur verið að úða lerkið með sveppalyfjum á þeim tíma sem sveppurinn dvelur á lerkinu en slíkar úðunaraðgerðir hafa skilað takmörkuðum árangri. Þess vegna mæla sérfræðingar með því að gróðursetja ekki lerki í grennd við aspir og hafa sumir velt því fyrir sér hvort það sé yfir höfuð sniðugt að rækta lerki sunnanlands.

Glöggir garðeigendur og jafnvel þeir sem ekkert vit hafa á gróðri, hafa tekið eftir því að nú í sumar er lerki einstaklega illa útlítandi. Nálarnar, sem voru svo grænar og fallegar í vor, eru brúnar, linar og hanga ónýtar á greinum trjánna. Þessi einkenni hafa ekkert með asparryðsveppinn eða aðra sveppi að gera heldur er hér um að ræða óvenju miklar frostkskemmdir. Síberíulerkið, Larix sibirica, laufgast yfirleitt fremur snemma og í hlýindunum í vor fór það af stað fyrir allar aldir, eins og margur annar gróður. Seint í maí kom svo kuldakast sem gerði það að verkum að nýju nálarnar hreinlega frusu í hel með fyrrgreindum afleiðingum. Í sumum tilfellum lifðu af brum á árssprotunum og hafa þau nú náð að vaxa fram og mynda nýjar nálar en oftar var það tilfellið að árssprotinn þoldi ekki við og kól illa. Síberíulerki er því langt frá sínu fegursta í sumar. Til er önnur lerkitegund, evrópulerki, Larix decidua, sem væri hugsanlega hentugri tegund í garða því það laufgast síðar en síberíulerkið og er því ekki í eins mikilli hættu á að skemmast í vorfrostum. Rétt er hins vegar að hafa í huga að evrópulerkið er líka millihýsill fyrir asparryðið.

Margir garðeigendur hafa haft af því áhyggjur að þessar skemmdir sem áður er lýst séu af völdum einhvers sveppasjúkdóms. Svo er ekki en á síðustu árum hafa a.m.k. tveir sveppasjúkdómar þó gert sig heimakomna á lerkinu. Sá fyrri er nefndur barrfellir. Hann hefur gert óskunda í votviðratíð og þá helst í skógræktarreitum þar sem trén standa þétt. Einkenna þessa svepps verður ekki vart fyrr en í fyrsta lagi í byrjun júlí og veldur hann því að nálarnar verða brúnar og detta svo af. Ef um eitt garðtré er að ræða geta garðeigendur fengið fagmenn til að úða tréð sitt með viðeigandi sveppalyfjum, þá er best að úða seint í júní og virkar úðunin þá fyrirbyggjandi, þó er aldrei hægt að ábyrgjast árangur af slíkri úðun.
Seinni sveppasjúkdómurinn kallast barrviðaráta. Hann leggst á börkinn og þegar hann nær að hringa sig utan um greinar trjánna verður viðkomandi grein brún og deyr. Restin af trénu er áfram græn og falleg. Þessi sveppur getur verið að dunda sér í sama trénu árum saman, tekur kannski eina og eina grein á hverju ári. Við þessum sveppasjúkdómi er besta ráðið að saga viðkomandi grein af og farga henni langt frá lerkitrjám til að koma í veg fyrir smit.

Lerki er að mínu mati mjög skemmtilegt garðtré. Það verður oft kræklótt og furðulegt í laginu sunnanlands vegna þess að veðráttan getur verið því óhagstæð en tré eiga ekkert endilega öll að vera eins í laginu, fjölbreytnin gefur garðinum gildi rétt eins og mannlífinu.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

. Gróðrarstöðin Storð | Ferjuvegur 1 | 806 Selfoss | Sími 564-4383 | stord@stord.is